08 febrúar 2009

Þorrablót

Gærdagurinn var afskaplega skemmtilegur.
Nína vinkona kom til mín í glamúrbröns þar sem við gæddum okkur á steiktum grísakviðvöðvum, spældum eggjum, ávöxtum og öllu sem tilheyrir góðum bröns.
Svo yfirfórum við skart og skrautklæði því þorrablót Vallamanna var haldið á Iðavöllum í gærkvöldi og við glys- og gleðikonurnar þurftum að undirbúa okkur vel.
Veðrið var svo fallegt í gær þannig að eftir brönsinn renndi ég á Seyðisfjörð að heimsækja mömmu. Í Fjarðarheiði var fjöldi manns að leika sér á snjósleðum og gönguskíðum. Ekki skýhnoðri á lofti. Í Stafdal iðaði allt af lífi og menn brunuðu í skíðabrekkunum.
Hjá mömmu hélt ég áfram að undirbúa mig fyrir kvöldið. Ég setti á mig gerfineglur og mömmu þótti ég rosa flott með langar og glansandi neglur.
Svo kom loks að því að halda inn á Velli og við Maggi, Nína og Edda Egils, öll í okkar fínasta pússi, mættum á svæðið stuttu áður en húsið átti að opna, en samt var allt orðið fullt og vandræði að fá gott sæti. En það leystist farsællega.
Maturinn var allur alveg 1. flokks og skemmtiatriðin góð. Ekki spillti fyrir að við Nína vorum teknar fyrir í lokaatriðinu því það er nú þannig í sveitinni að það er enginn maður með mönnum nema að það sé gert smá grín að honum á þorrablótinu.
Kannski spurning af hverju karlmenn voru látnir leika okkur.

|