Hvað dregur fólk til Íslands?
Ég var á skemmtilegri samverustund.
Einu sinni í viku er opið hús á bókasafninu á Egilsstöðum. Það er ætlað útlendingum sem vilja æfa sig að tala íslensku og skiptist fólk úr Norræna félaginu, Rauða krossinum og Soroptimistaklúbbi Austurlands á að vera þar og spjalla við innflytjendur um hvað sem menn vilja spjalla um.
Í dag kom ungt og áhugavert par frá Tékklandi. Þau hafa búið hér á Egilsstöðum í tvö ár og hafa hugsað sér að vera hér áfram. Strákurinn vinnur í álverinu á Reyðarfirði en stelpan á verkfræðistofu hér á Egilsstöðum.
Þau voru spurð að því hvað hefði dregið þau til Íslands, af öllum stöðum.
Var það munaðarlíf sem hér var til skamms tíma lifað? Luxusvillur? Glæsilegar verslanamiðstöðvar?
Nei, ó, nei. Þau höfðu verið að velta fyrir sér að fara til Kanada, Noregs eða Nýja Sjálands en sáu þá litla mynd sem tekin var á Íslandi. Á myndinni stóð maður og baðaði sig í fossi.
Þetta fannst þeim athyglisvert. Maður að baða sig í heitum fossi út í guðs grænni náttúrunni. Þau tóku sér ferð á hendur, fundu fossinn sem er hér á hálendi Austurlands, í Laugavalladal og fengu sér bað. Og nú eru þau sest að hér á Íslandi.
Það eru ótrúlegustu ástæður sem geta fengið fólk til að leggja upp í ævintýraferðir.