Laugardagur í leti
Það er náttfatadagur fram að hádegi.
Leti og huggulegheit. Kúri í bólinu með kaffibolla og krossgátublað.
Maggi og félagar eru farnir á fjöll, eða ég held það alla vega.
Í upphafi vikunnar voru þeir að skipuleggja ferð á Grímsfjall. Þegar leið á vikuna var ferðaáætlunin farin að skreppa saman og hljóðaði upp á Geldingafell og Goðahnjúkar. Þegar Maggi kom og kvaddi mig í morgun voru þeir á leið í Snæfell.
Mér kæmi ekki á óvart þó þeir hafi bara rennt upp í Hallormsstað á 44" jeppunum og séu núna í Atlavík að borða nestið sitt.
Veðrið á Fljótsdalshéraði er drungalegt í dag. Drungalegt eins og ástandið í þjóðfélaginu.
Ég ætla að klæða mig vel eftir hádegi og mæta í Tjarnargarðinn á mótmælafund. Ég sé það á Facebook að þar eru 30 manns búnir að tilkynna sig á fundinn.
En hvað sem þjóðfélagsástandinu líður þá ætla ég að njóta þess að eiga mjúk náttföt, heitt og gott ból og þurfa ekki strax á lappir.