10 janúar 2009

Flug í kreppunni

Í gær flaug ég innanlands í fyrsta skipti í kreppunni.
Það var eins og maður væri kominn 30 til 40 ár aftur í tímann. Við vorum að nudda þetta inn í skýjum alla leiðina og það var bara töluð íslenska í vélinni. Greinilegt að allir erlendir starfsmenn Kárahnjúka eru farnir til síns heima.
Ókyrrð alla leið þar sem aldrei var farið upp úr skýjaþykkninu - alveg eins og var á 8. áratugnum og svo náttúrulega fór vélin að djöflast yfir Þingvallavatni og það sem eftir var í bæinn, nema núna djöflaðist hún bara nokkuð myndarlega.
Ég átti næstum von á að flugfreyjan myndi, eins og í gamla daga, ganga um og bjóða flugvélabrjóstsykur til að fyrirbyggja að maður fengi hellu í lendingunni, en það gerðist ekki.
Þá er það bara spurning hvernig ég nota þennan eina dag sem ég hef í höfuðstaðnum. Á ég að mæta á Austurvöll með eggjabakka eða á ég að fara í Kringluna og Ikea? Það er spurningin sem brennur á mér núna þegar ég sötra morgunkaffið.

|