01 janúar 2009

2009

Gleðilegt ár öll sömul.
Ég ætla rétt að vona að þetta ár verði ekki verra en árið sem var að kveðja, svona á landsvísu.
Þótt það hafi skipst á skin og skúrir í prívatlífinu hjá mér eru björtu stundirnar sem betur fer fleiri en þær dimmu. Það hefur nú samt oft legið betur á mér í upphafi árs en núna.
En það gladdi mig að sjá að Hörður Torfa var valinn maður ársins á Rás 2. Hann er svo sannarlega vel að því kominn. Hann er einn af þeim einstaklingum sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir - heiðarlegur, trúr sinni sannfæringu og hann á heiður skilinn fyrir hvað hann hefur verið þrautseigur í áratugi að ferðast um landið og halda tónleika.
Mótmælafundirnir á Austurvelli eru bara enn ein rós í hnappagat Harðar.
Ég byrjaði árið á því að renna yfir Fjarðarheiðina til að heimsækja mömmu sem dvelur á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar. Afskaplega væri þægilegt ef það væru jarðgöng á milli Héraðs og Seyðisfjarðar. Það er ekki nóg með að maður þurfi að fara þessa 600 m upp fyrir sjávarmál til að komast milli byggðarlaga, heldur þarf að aka langan veg þarna uppi og þar er oft allt annað veður en í byggð. Það getur verið besta veður í byggð en bylur uppi á Fjarðarheiði.
Yfir vetrartímann fæ ég oftast hnút í magann þegar ég ætla að skjótast á Seyðisfjörð, þrátt fyrir að ég sé á fjórhjóladrifnum bíl. Það er nefnilega ekki einu sinni símasamband á löngum kafla þarna uppi þar sem veður geta verið válynd.

|