15 febrúar 2009

Frábær helgi

Þrátt fyrir kreppu og vindgnauð úti.
Það er eins og það hafi loksins kviknað einhver löngu gleymd framkvæmdagleði í mér.
Ég tók mér frí í vinnunni eftir hádegi á föstudag, gerði helgarhreingerninguna, hélt vel lukkað kvöldverðarboð og svo var ánægjulegt hvað lið Fljótsdalshéraðs stóð sig vel í Útsvari. Stefán Bogi er náttúrulega bara vindhani af guðsnáð, enda Framsóknarmaður með meiru.
Það eru ár og dagar síðan mig hefur langað til að sauma eitthvað en þar sem það kviknaði þessi óviðráðanlega framkvæmdagleði hjá mér þá fór ég til Láru saumakonu fyrir helgi og fékk lánaða bunka af sniðblöðum. Nú á að reyna að sauma sér kreppuflíkur.
Svo bakaði ég brauð og í gær fundum við Maggi okkur loksins tíma til að gera slátur úr sláturefninu sem við fengum sent frá Vopnafirði í haust. Kannski ekki besta slátur sem ég hef smakkað en það hlýtur að bragðast af ást svona Valentínusarslátur.
Núna hlusta ég á vindinn leika í trjánum. Í kvöld á ég von á góðum vinum í mat.
Já, þetta er bara besta helgi sem ég hef átt á þessu ári.

|