14 mars 2009

Vor í sálinni

... þó úti sé allt á kafi í snjó.
Ég er komin svolítið fram úr sjálfri mér. Farin að lifa sumarið í huganum. Stússa í garðinum, bera á pallinn, ferðast á fjöll, farin til útlanda og snurfussa allt innandyra jafnt sem utan í Skógarkoti.
Það styttist í jafndægur að vori. Í dag ætla ég í Blómaval, kaupa kryddjurtafræ og mold og leggja drög að smá ræktun. Svo er ég líka að spá í tilraunabakstur fyrir fermingu Berglindar Rósar Nínudóttur.
Annars held ég að taki lífinu bara með ró og reyni aðeins að snyrta húsið. Kisurnar eru svo mikið inni núna og það eykur hreingerningaþörfina á heimilinu.
Kolgríma lagðist í húsfreyjustólinn fyrir nokkrum vikum og hefur varla farið fram úr honum nema rétt svona til að sinna sínum brýnustu þörfum.

|