01 mars 2009

Nú helgin er liðin

... og aldrei hún kemur til baka.
Veðrið hefur verið eins fallegt á Héraði og hugsast getur á veturna. Sól, logn og ekkert mikið frost.
Í morgun komu nokkrar vinkonur í náttfatabröns. Þær svindluðu reyndar svolítið nema Nína, hún var sú eina sem mætti á náttfötunum. Hinar afsökuðu sig með því að eiga ekki skapleg náttföt eða að hafa verið að koma úr flugi og ekki kunnað við að fljúga frá Reykjavík í náttfötunum til að mæta beint í brönsinn.
Jæja, það má alltaf finna afsakanir fyrir hlutunum.
Eftir hádegi fórum við Klófríður í spássitúr. Kisa var kát með að fá að fara með mér og skottaðist í kringum mig inn götu og niður í áttina að bænum. Ég leyfði henni að koma með því ég ætlaði bara að fara einn lítinn hring í hverfinu okkar.
Það var svolítið tafsamt að hafa kisu með því hún þurfti að rannsaka eitt og annað á leiðinni, en alltaf kom þessi elska á eftir mér að lokum þar til við vorum rétt að koma heim í Skógarkot aftur. Þá sá hún kött sem hún þurfti að blanda geði við svo ég lét hana bara eiga sig.
Maggi er kominn heill heim af fjöllum. Hann var með 4x4 köppum á þorrablóti í Kverkfjöllum. Færi var þungt og ferðin gekk hægt, bæði inneftir og heim aftur.
Það var bara gott að ég ákvað að vera heima og njóta helgarinnar í félagsskap katta og vinkvenna.

|