Hvers er hvað eða hvurs er hvað?
Hvað á þjóðin skilið? Hvers á hún að gjalda?
Alla vega finnst mér að hún eigi ekki að þurfa að hlusta á tilgerðarleg stílbrög úr ræðustól Alþingis á þessum síðustu og verstu tímum.
Fyrir margt löngu, meira en 25 árum, þá var það lenska hér á landi að forstöðumenn ríkisstofnana gerðu ekki svo mikinn greinarmun á fjölskyldu sinni, heimili og þeirri stofnun sem þeir höfðu umsjón með. Þeir virtust ekki skynja að annars vegar voru þeir embættismenn og hins vegar fjölskyldumenn. Starfsmenn ríkisstofnana voru meira að vinna hjá forstöðumanninum en hjá viðkomandi stofnun.
Satt að segja hélt ég að þessir tímar væru liðnir.
En nú þegar maður les um það hversu frjálslega Gunnar Birgisson virðist hafa túlkað línuna milli sín sem bæjarfulltrúa og síðar bæjarstjóra Kópavogs annars vegar og föðurs hins vegar og eins milli sín, LÍN og dótturinnar, þá fyllist ég svo miklum pirringi að ég þarf að gera öndunar- og slökunaræfingar til að forða sjálfri mér frá því að grípa til einhverra aðgerða.
Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn enn einu sinni að sitja og gera ekki neitt þegar þeirra maður er að sukka með almannafé? Halda menn á þeim bæ að þá hverfi vandinn? Og af öllum fjármunum ríkisins, fjármuni Lánasjóðs íslenskra námsmanna? Það rifjast upp fyrir manni hremmingarnar sem námsmenn lentu í sl. haust.
Þjóðin á það skilið að það verði tekið í lurkin á Gunnar og hans líkum og að það verði girt fyrir að svona sukk og svínarí þrífist.
Annars liggur bara ágætlega á Lötu Grétu. Sumarið er komið á Fljótsdalshéraði. Vorverkin langt komin í garðinum og framundan gott sumar. Alls konar skemmtun á dagskránni - ferðir og ferðalög, gestakomur og heimsóknir.
Eina sem spillir gleði minni er þessi endalausa og gengdarlausa spilling áhrifamanna í samfélaginu.