Sumarið er komið
... og kosningar afstaðnar.
Jónína Rós komin á þing og farin suður á fyrsta þingflokksfundinn sinn.
Ég óska Jónínu Rós til hamingju með þingsætið og okkur Austfirðingum með nýjan og öflugan þingmann. Ég veit að Nína á eftir að standa sig vel á Alþingi sem annars staðar.
Á kosningadaginn var ég úti í menntaskóla að vinna við kosningarnar. Mér þykir nú bara gaman að taka þátt í því og fá tækifæri til að sjá hverjir eru búsettir í sveitafélaginu. Það er alltaf að verða fleira og fleira fólk sem ég þekki ekki hér á Egilsstöðum. Spurning hvort það sé af því að nýtt fólk flytur í þorpið eða að ég er að eldast og verð ómanngleggri með hverju árinu.
En hvað um það, ég þekkti alla vega fuglana sem ég sá á Egilsstaðatúninu um helgina. Það var stærðarinnar lóuhópur mættur á svæðið. Ég lagði út í kanti og virti þessar elskur fyrir mér. Það er fátt skemmtilegra en að sjá lóukarlana gera sig til fyrir lóukerlingunum. Ólíkt tilkomumeiri sjón en að sjá karlmenn fara á fjörurnar við konur á böllum.
Spurning hvort að atferli lóukarla virki fyrir karlmenn.