07 júní 2009

Glæpur og refsing

Ég er eiginlega öskureið.
Samt get ég ekki áttað mig á umfangi reiði minnar því hún er þarna einhvers staðar undirliggjandi. Sjálf er ég að reyna að njóta tilverunnar og bera skikkju lífsins létt á herðum mér.
Þessir Icesave-reikningar! Hvernig í ósköpunum getur íslenska þjóðin borið ábyrgð á þessu öllu saman? Hvað um þá sem fundu þetta skrímsli upp, komu því á koppinn og unnu því brautargengi í útlöndum? Er þeirra ábyrgð engin?
Þegar ég les greinar á borð við þessa þá fæ ég engan veginn skilið hvernig hægt er að binda venjulega launþega þessa lands á þann klafa að borga brúsann eftir þessa glæpamenn. Hver er munurinn á þessum glæpamönnum og þessum venjulegu sem við höfum þekkt í gegnum ár og aldir?
Það ætti að gera allar eignir þessara manna upptækar og nota þær til að styðja við mennta- og heilbrigðiskerfið á Íslandi. Sjálfir ættu þessir menn að fara í þegnskylduvinnu upp á vatn og brauð. Þar ættu þeir að vinna þar til skuldin er að fullu greidd. Þeir gætu unnið við að klára tónlistarhúsið í Reykjavík og önnur bákn sem standa hálfköruð um allt land sem minnisvarðar um þetta sukk og svínarí sem viðgekkst í þjóðfélaginu.
Að loknum vinnudegi væri hægt að láta þá standa í eina klukkustund í gapastokk á almannafæri, þar væru hrísvendir sem almenningur fengi að dangla í þá með. Eitt högg handa hverjum sem vildi, svona svo greyin verði ekki alveg húðlaus.

|