29 september 2009

Lata Lata Gréta

Ég er búin að vera í rosalega löngu bloggletikasti.
Sumarið hefur verið fínt, þrátt fyrir að sólin léti lítið sjá sig á Héraði í júlí og ágúst. September er búinn að vera ágætur og hvað mig sjálfa varðar er meðalhiti sumarsins góður því ég var hálfan mánuð í Tyrklandi í 35 til 45° hita í ágúst og það var yndislegt.
Raunar svo yndislegt að við Maggi ráðgerum að fara aftur til Tyrklands næsta sumar og vera þar helst í mánuð.
Í dag er ár frá því kreppan settist að á Íslandi. Við skulum vona að hún nái ekki að stoppa svo lengi hér að hún ávinni sér heimilisfestu til frambúðar.
Haustverkin hafa markast svolítið af ástandinu í þjóðfélaginu en í Skógarkoti var horfið aftur til fortíðar hvað fæðuöflun varðar. Það er búið að vinna 10 slátur, búa til hrútaberjahlaup, úrbeina naut og hreindýr, taka upp kartöflur og nú er bara beðið eftir nokkrum lambaskrokkum og þá má veturinn ganga í garð.
Veturinn leggst vel í mig þrátt fyrir að það séu ýmsar blikur á lofti bæði í þjóðfélaginu og hjá mér persónulega. Launalækkun framundan hjá mér, kannski breytingar á starfinu en hvað sem verður - maður tekur einn dag í einu og hugsar eins og sannur Íslendingur - Æ - þetta reddast.
Svo held ég að það sé ekki vafi að þegar einar dyr lokast þá opnast aðrar.

|