24 október 2009

Að moka flórinn

Stundum fæ ég kjánahroll þegar ég sé útsendingar frá Alþingi.
Þegar Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn fara með stór orð í ræðustól út af Icesave. Einhvern veginn finnst mér að þessir menn og konur ættu að hafa hægt um sig - það vita það allir að Icesave og bankaklúðrið er þeirra verk. Hinir eru bara að moka upp flórinn og það er aldrei vinsælt verk.
Stundum velti ég því fyrir mér hvernig fjölskyldur útrásavíkinganna hafa það. Foreldrar sem alið hafa upp unglinga þekkja áhyggjurnar af því að barnið lendi í eiturlyfjum, að það skaði aðra og eyðileggi líf sitt með því að velja ranga braut í lífinu.
Hvernig skyldi það vera að horfa upp á afkvæmi sitt eyðileggja framtíð heillar þjóðar? Fíknin sem hertók afkvæmið er kannski ekki áfengis- eða eiturlyfjafíkn heldur fjárglæfra- og neyslufíkn af verstu gerð sem heyrst hefur um á Íslandi.
Ég hef litið björtum augum til þess tíma að ljúka starfsævinni, eiga þá trygga fjármuni í formi séreignasparnaðar og lífeyrisgreiðslna. Kannski svolítinn sjóð á bankabók líka.
Þessi draumur er nú horfinn út í veður og vind. Séreignasparnaðurinn fer í að greiða niður lán svo ég geti tekist á við aðstæðurnar um áramótin þegar launalækkun tekur gildi hjá mér. En ég horfi nú samt á það að ég hef þó vinnu, meira en hægt er að segja um marga Íslendinga.
Svo verður mér flökurt í hvert skipti sem forseti vor birtist í fjölmiðlum. Ólafur Ragnar - ertu nokkuð til í að gefa þjóðinni svigrúm? Við þurfum að reyna að jafna okkur á því hvernig þú hefur erindað fyrir útrásarmenn, fleytandi rjómann af réttunum með þeim.
Einhvern veginn dettur mér svo oft í hug sagan um nýju fötin keisarans þegar forseti vor sýnir sig frammi fyrir þjóðinni

|