05 október 2005

Með mótvindinn í bakið.

Tóta litla stakk upp á því að ég útskýrði fyrir mönnum hvernig speki gærdagsins er til komin.

Þannig var að fyrir u.þ.b. 10 árum efndi Gleðikvennafélag Vallahrepps til hjólreiðaferðar frá Hallormsstað, inn Fljótsdal, út Fell, í Egilsstaði, inn Velli og í Hallormsstað.

Þetta var yndislegur sumardagur en við vorum bara þrjár sem hófum ferðina, við Tóta litla og Guðlaug. Það hafði rignt um nóttina, loftið var tært og skógurinn ilmaði af nýþvegnum gróðrinum. Það var ósköp ljúft og létt að hjóla í morgunkyrrðinni inn í Fljótsdal. Við höfðum sett eiginmönnum okkar fyrir ákveðin þjónustuverkefni í tengslum við þetta ferðalag og Þórhallur Guðlaugarmaður var sérstakur kaffiuppvörtunarmaður. Hann var búinn að dekka borð undir stórum steini hjá Hrafnsgerði, þar var áð og við fengum þetta fína kakó, kaffi og meðlæti. Síðan var haldið sem leið lá upp og niður ása og hæðir í Fellum, ansi hreint strembin ferð á vegi sem var óbreyttur frá því á landnámsöld. Á Egilsstöðum bættust nokkrar gleðikonur í hópinn. Þeirra á meðal Kristbjörg yogi í Vallanesi. Það var ekki laust við að það væri brosleg sjón að horfa á eftir henni á ævagömlu DBS hjóli með framhjólið svo undið að það sveiflaðist til hliðanna þar sem það rann eftir veginum. En Kristbjörg lét ekki svona smámuni hefta för. Við Hafursá, niður við Fljótið, beið Þórhallur með dekkað kaffiborð. Þó svo að við hefðum meðbyr inn Velli á malbikuðum vegi vorum við orðnar lúnar að áliðnum degi þegar við stigum hjólin síðasta spölinn, eftir u.þ.b. 100 km ferðalag. Komu þá ekki bara eiginmenn okkar Tótu litlu á móti okkur með sherryglös á bakka.

Þetta voru ljúfar móttökur. Við konurnar fórum og létum líða úr okkur í sundlauginni á Hallormsstað. Finnur og Rumurinn tóku til við að framreiða grillmat og gullnar veigar. Eða réttara sagt Rumurinn undirbjó og sá alfarið um matseldina en Finnur sagði honum sögur á meðan. Hann var aldrei mikið fyrir eldamennsku hann Finnur minn en aftur á móti var hann góður sögumaður.

Síðan leið þetta ljúfa kvöld yfir góðum mat og drykk í góðra vina hópi á pallinum hjá Rumnum og henni Tótu litlu.

En fyrr um daginn, upp úr hádeginu læddist hafgolan inn Héraðið. Eftir að vera búnar að berjast upp allar brekkurnar á landnámsveginum í Fellunum með strekkings vind í fangið, þá var það okkur mikill léttir að koma á malbikið við Lagarfljótsbrúnna og losna undan baráttunni við blásturinn. Finna vindinn þrýstast á bakið og auðvelda okkur för. Þá hrutu Guðlaugu þessi orð af vörum: Ohhh stelpur, mikið er nú léttara að hjóla þegar við höfum mótvindinn í bakið.

Mér hefur alltaf þótt góð lífsspeki felast í þessum orðum, sem á þessu augnabliki áttu svo einstaklega vel við.

Speki dagsins: Streita er ekki tilkomin vegna aðstæðna okkar heldur hvernig við hugsum um aðstæðurnar og hugsunum má stjórna.

|