04 apríl 2007

Að fleygja bókum...

... eru nánast föðurlandssvik í mínum huga.
Ég er að pakka og pakka. Gengur samt rosalega hægt því ég þarf að velta fyrir mér bókunum, á ég að eiga þessa bók eða á ég að henda henni? Svo þarf ég að skrásetja það sem fer ofan í kassana því að um leið og ég er búin að loka kassa er ég búin að gleyma hvað í honum er.
Núna eru bækur sem á að geyma búnar að fylla 14 kassa. Bækur sem á að henda eru þrjár. En það á eftir að fjölga á báðum stöðum því það er töluvert langt í að helmingurinn af bókunum sé frágenginn.
Svo ég mæðist nú smávegis þá er ég bara með eina og hálfa hendi virka vegna festumeina og tennisolnboga á vinstri. Ég var svolítið slæm í handleggnum og fór til læknis og við að heyra hvernig komið er fyrir vinstri handleggnum þá versnaði líðan mín um allan helming.
Ef það er einhver sem les þetta og hefur ekki fundið sér neitt skemmtilegt að gera í páskafríinu þá er hann/hún velkomin í pökkunarstarf hjá mér.
Ég verð reyndar ekki heima á föstudaginn langa, þá ætla ég að taka þátt í Passíusálmalestri á Skriðuklaustri, í tengslum við sýningu á verkum Barböru Árnason.

|