02 apríl 2007

Lata Gréta gerist landkönnuður

Alltaf gaman að koma á framandi slóðir.
Maður er rétt kominn heim úr jómfrúarferðinni á sólarstrendur. Mætti í vinnuna mína í morgun og hvað haldið þið???
Yfirmaðurinn minn er búinn að skrá mig í ferð til Noregs í haust, bara heila Oslóarferð.
Minnir mig á ritgerð sem örverpið mitt skrifaði þegar hún var í sex ára bekk. Ritgerðin hét því fróma nafni Noregsferðin og var einhvern veginn á þessa leið: Daginn sem Gunnhildur fór til Noregs þá fórum við pabbi í Gunnlaugsstaði. Svo fórum við heim og spiluðum Lönguvitleysu. Svo fórum við í Úlfsstaði. Svo fórum við heim og héldum áfram að spila Lönguvitleysu.
Mjög skemmtileg ferðasaga.
Nema hvað, ég hef aldrei verið svo fræg að koma til Noregs, ekki eins og Gunnhildur. Kannski að örverpið mitt skrifi skemmtilega ferðasögu í haust, eitthvað á þessa leið: Daginn sem mamma fór til Noregs þá fórum við Nonni á Kaffivagninn. Svo fórum við í Keiluhöllina og spiluðum keilu. Svo ...

|