15 apríl 2008

Sólin skín

... sæt og fín.
Hún gerði það líka í gær. Veðrið hér á Héraði var afskaplega fallegt í gær og í dag er útsýnið út um stofugluggana mína aldeilis hreint fallegt.
Ég sé Snæfellið hreint og tært. Fljótsdalsheiði, Fellaheiði, Smjörfjöllin, Hellisheiðina og Kollumúlann. Öll fjöllin snjóhvít og falleg. Smá skýjaslæður hér og þar á himni.
Það liggur við að ég öfundi þá fjallakappa sem eru að leggja inn á hálendið í 6 daga útilegu. En það eru gerðar þær kröfur til mín í vinnunni að ég láti sjá mig þar endrum og sinnum.
Nú er að sjá hvort eitthvað er að marka það sem pólitíkusar segja, en Nína vinkona sendi mér sms til Barcelona og sagði að vorið kæmi í dag á Fljótsdalshéraði.
Annars hefur mér skilist að Nína hafi reynst vinur í raun í Útsvarinu sl. föstudagskvöld. Mér finnst liðið okkar Héraðsmanna hafa staðið sig frábærlega vel í þessari spurningakeppni.

|