28 febrúar 2009

36 ára kraftaverk

Veturinn 1973 var viðburðaríkur.
23. janúar var ég vakin upp við þær furðufréttir að gos væri hafið í Vestmannaeyjum. Einhver hafði gleymt að slökkva á útvarpinu sínu og vaknaði svo við að hafin var útsending með fréttum af gosinu.
Í þá daga var bara gamla Gufan og útsendingum lauk kl. 1 á nóttunni með veðurfréttum og svo þagði útvarpið til klukkan 7 að Jón Múli hóf upp sína dimmu og fallegu rödd og yfir landsmenn hljómaði "Útvarp Reykjavík. Útvarp Reykjavík. Klukkan er 7."
Sá sem gleymdi að slökkva á útvarpinu sínu vakti alla fjölskylduna og ég man að við söfnuðumst saman við útvarpið í bókaherberginu og hlustuðum með skelfingu á þessar ótrúlegu fréttir.
28. febrúar var ég aftur vakin upp síðla nætur og nú var mér sagt að Guðlaug mágkona hefði fætt barn í næsta herbergi við mig.
Þessu átti ég nú erfitt með að trúa, hún átti ekkert að fæða barnið fyrr en í apríl. Ég man að ég sagði bræðrum mínum að láta mig í friði, snéri mér á hina hliðina og reyndi að sofa áfram.
En þeir gáfu sig ekki og sögðu að ég gæti farið inn á bað og séð verksumerkin. Þar var baðkarið fullt af blóðugum handklæðum svo ég varð að trú því að eitthvað hafði gengið á um nóttina.
Það var komin í heiminn pínulítil stepuögn löngu á undan áætlun. Hún fékk nafnið hennar mömmu, því mamma tók á móti henni.
Það leit ekki vel út með að þetta litla barn myndi lifa það af að hafa fæðst við svona frumstæðar aðstæður og þegar sjúkrabíllinn kom með nýbakaða móður og pínulítið barn niður á fæðingardeild var ekkert tilbúið til að taka á móti þeim. Það þurftu að græja allt þegar þær voru mættar.
En þessi litla stúlka gerði meira en að tóra, hún óx og dafnaði og í dag er hún hjúkrunarfræðingur á Akureyri, móðir þriggja myndarlegra barna.
Til hamingju með daginn Kristín mín.

|