14 febrúar 2009

Kattalíf í kreppunni

Afskaplega hlýtur að vera áhyggjulaust líf að vera heimilisköttur.
Í þessu þjóðfélagsumróti sem nú er, þegar mannskepnan veit varla í hvorn fótinn á að stíga, er afslappandi að fylgjast með köttunum á heimilinu.
Ekki hafa þeir miklar áhyggjur. Gera sér enga grein fyrir því hvað kattamaturinn hefur hækkað í verði undanfarnar vikur og enn síður að þeir hafi áhyggjur af húsnæðismálum.
Kisurnar halda áfram að sleikja feldinn sinn og mala, milli þess sem þær kíkja í matardallana eða bregða sér stutta stund út í vetrarkuldann eða hringa sig niður og vilja fá smá klapp og klór hjá manni.
Það er gott fyrir sálina að eiga svona vini sem láta sig engu varða hvort Davíð er eða fer. Hvort það er vinstri stjórn, hægri stjórn eða bara engin stjórn.
Vinkona mín er með hundaræktun. Ég spurði hana hvort það minnkaði ekki að fólk fengi sér dýra hunda í þessu efnahagsástandi. Hún taldi svo ekki vera því eitt af því sem menn líta til núna er að sinna heimilinu og fjölskyldunni betur og e.t.v. að fá sér gæludýr. Menn sjá fram á að hafa meiri tíma til að hugsa um gæludýr þegar utanlandsferðirnar detta upp fyrir.
Gæludýr eru miklir gleðigjafar og það er örugglega betra fyrir fjölskyldulífið að sameinst um góðan vin eins og hund eða kött en óvin eins og Davíð og útrásarvíkingana.

|