06 október 2005

Borgarfjörður eystra

Í gær fór ég niður á Borgarfjörð. Þetta var auðvitað fínn fundur eins og alltaf í klúbbnum mínum, en toppurinn var eins og venjulega þegar fundir eru haldnir á Borgarfirði, veisluborð framreitt af heimakonum. Ótrúlegar þessar konur á Borgarfirði.

Það er merkilegt hvað þessi litli staður hefur alið af sér mikið af merkilegu fólki. Pápi minn var Borgfirðingur, nánast í húð og hár, fæddur þar og uppalinn. Hann var vanur að segja að menn bæru þess aldrei bætur að vera Borgfirðingar.

Þessi staður með allri sinni náttúrufegurð og öllu þessu skemmtilega fólki hann togar menn alltaf til sín.

Í mínu ungdæmi tíðkaðist það að senda börnin af mölinni á sumrin og koma þeim fyrir í sveitinni, þau voru rekin á fjall eins og lömbin. Við systkinin tókum þátt í þessum vorflutningum barna og eitt sumarið var bróðir minn sendur til Sillu frænku á Borgarfirði. Silla átti nokkur börn en þau voru öll farin að heiman nema Nonni frændi sem var yngstur. Þeir bróðir minn og Nonni frændi elduðu saman grátt silfur allt sumarið. Þegar leið að hausti þurftu þau hjónin Silla og maður hennar að fara akandi til Reykjavíkur og var bróður mínum skilað heim í Kópavog í leiðinni.

Á leiðinni segir Silla: "Jæja gæskur, ætlar þú ekki að koma aftur til okkar næsta sumar?”

Strákur: “Nei, mig langar ekkert að koma aftur fyrr en það er búið að lóga honum Nonna.”

Silla: “Hvað segir þú drengur?”

Strákur: “Ég ætla ekki að koma aftur fyrr en Nonni er dauður.”

Hann stóð við þetta að því leyti að hann kom ekki aftur á Borgarfjörð fyrr en Nonni var löngu vaxinn úr grasi og farinn að heiman.

En þetta varð hins vegar til þess að ég var send austur á Borgarfjörð og fékk að elda grátt silfur með Nonna frænda fjögur sumur.

Speki dagsins: Mundu að umbera fólk sem er ólíkt þér.

|