08 febrúar 2006

Amerískar pönnukökur

Fyrir helgina þarf ég að vera búin að læra að baka amerískar pönnukökur.
Það getur ekki verið flóknara en að baka venjulegar íslenskar pönnukökur, lummur eða skonsur og það hefur mér tekist á lífsleiðinni.
Ég hef tekið að mér að baka amerískar pönnukökur í seytján manns á sunnudagsmorgun, en það er hluti af bröns sem við nokkrir Héraðsmenn tekið að okkur að sjá um í lúxusútilegu. Eins gott að vanda sig því það verða 4 kokkar í hópnum.
Ég fór að leita að góðri uppskrift á netinu og ég fann eina svo ógeðslega holla að það er ekki hægt að bjóða fólki sem ætlar að njóta lífsins að borða slíkt. Í þeirri uppskrift var lífrænt ræktað hveit, bóghveiti, vistvæn egg og einhverjir líkamspartar af nýtíndri hvönn. Hljómar ekki sérlega amerískt. Hljóta að vera sænskar vandræðapönnukökur, alla vega allt of hollar.
Hr. Þingólfur bakaði einu sinni þvílíkt djúsí amerískar pönnukökur með föstudagsmorgunmatnum í vinnunni. Þær voru auðvitað hlaðnar hitaeiningum en alveg ógleymanlega góðar. Verst að Þingólfur er stud. jur. við Kaupmannahafnarháskóla um þessar mundir svo ég get ekki fengið skyndnámskeið hjá honum.

|