Ömurlegasti dagur ársins
Það er sem sagt búið að reikna það vísindalega út að mánudagurinn 23. janúar sé ömurlegasti dagur ársins. Þetta var hins vegar góður dagur hjá mér. Menn eiga víst að vera voðalega mikið niðurdregnir yfir að þurfa að mæta í vinnuna eftir jólin. Ég er bara mjög ánægð með að vera loksins komin þokkalega á skrið í vinnunni eftir jólin.
Svo þetta með jólakortareikninginn. Ég er nú búin að vera að vinna aukavinnu og taka að mér verkefni sem gefa eitthvað í aðra hönd svona til að eiga fyrir visareikningnum um mánaðmótin. En svo í dag á þessum svokallaða ömurlegasta degi ársins þá bara byrjar að snjóa peningum inn á tékkareikninginn minn. M.a. hefur maðurinn sem dregur í HHÍ ákveðið að leggja lítið lóð á vogarskálina varðandi visareikninginn minn. Þetta er svo sem varla upp í nös á ketti og gerir ekki útslagið en ég þakka viðleitnina. Vona bara að hann dragi handa mér obbolítið hærri vinning næst ef hann er hvort sem er að draga mitt númer.
Þetta var bara fínn dagur og ef þetta er ömurlegasti dagur ársins þá á ég rosalega gott ár í vændum.