31 desember 2005

Gamlársdagur

Upp er runninn gamlársdagur
ákaflega skýr og fagur.
Á þessum degi fyrir 26 árum giftum við Finnur okkur. Við tókum okkur far með leið 5 ofan úr Teigahverfi áleiðs niður í bæ og var förinni heitið í Borgardóm sem þá var til húsa á horni Túngötu og Garðastrætis. Frumburðurinn var með í för tveggja og hálfsárs gömul telputáta.
Þetta var fallegur vetrardagur, snjór yfir öllu og veðrið var stillt en kalt.
Þar sem við vorum snemma á ferð og veðrið svona fallegt ákváðum við að fara út á Hlemmi og labba niður Laugaveginn og skoða jólaskrautið í búðargluggunum.
Það lá vel á frumburðinum. Hún sat eins og svo oft fyrr og síðar á öxlum pabba síns. Hún vissi að við vorum að fara að gera eitthvað voðalega skemmtilegt sem væri kallað að gifta sig og ég held hún hafi séð fyrir sér einhvern fjölskylduleik. Af og til á leiðinni dillaði hún sér á öxlum föður síns og söng "Vi´rum a farað gift´okkur". Þetta er sá fallegasti brúðarmars sem ég hef heyrt.
Kristjana Jónsdóttir þá borgardómari en nú héraðsdómari í Héraðsdómi Reykjavíkur gaf okkur saman og á meðan á athöfninni stóð sat frumburðurinn sæll og glaður í dómsalnum með heilan tópaspakka til umráða.
Það er sagt að hjónabandið verði eins og veðrið er á brúðkaupsdaginn. Það var ekki þannig hjá okkur. Hjónabandið okkar var ekki kalt og því síður stillt.
Á 18. brúðkaupsafmælisdeginum vorum við skilin og á þeim 22. vorum við tekin saman aftur.
Þegar fór að líða að silfurbrúðkaupsafmælinu spurði ég Kristjönu hvort við Finnur mættum halda upp á það, eða hvort við yrðum að draga frá þessi 3 ár sem við vorum skilin að borði og sæng. Kristjana hélt nú aldeilis að okkur væri heimilt að halda upp á 25 ára brúðkaupsafmælið því þessi 3 skilnaðarár hefðu bara skerpt kærleikann.
En Finnur lifði það ekki að halda upp á silfurbrúðkaupsafmælið með mér.
Árið sem er nú að kveðja hefur verið gott ár í mínu lífi og nýja árið leggst vel í mig. Ég þarf ekki að bera eins þungar byrðar á komandi ári eins og þessu sem er að líða því ég er 16,5 kg léttari en ég var á þessum tíma fyrir ári síðan. Hugsið ykkur það hafa runnið af mér 33 smjörstykki.
Ég þakka öllum sem heimsótt hafa Lötu Grétu á árinu og vona að þið eigið öll skemmtilegt gamlárskvöld fyrir höndum. Ég ætla, ásamt systur minni og systurdóttur, að snæða með aldraðri móður minni á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði og koma svo seinna í kvöld upp í Hérað og gleðjast með vinum mínum. Skelli mér á áramótadansleik ef vel liggur á mér.
Þá er það spurning hvort maður stígur á stokk og strengir heit á miðnætti. Eins og allir vita sem þekkja mig þá reyki ég í laumi og hef gert undanfarin ár. Spurningin er hvort ég hætti að reykja í laumi eða hætti að reykja. Ef það verður einhver stokkur á vegi mínum þá kannski stíg ég á hann.

|