20 desember 2005

Ekki búin að gera ALLT

Og hef engar áhyggjur af því.
Fyrstu jólaenglarnir eru rétt að koma.
Lambið mitt og tengdasonur nr. 2 koma austur með hádegisvélinni á morgun - gaman, gaman. Við kisa erum að búa um okkur í obbolitla gestaherberginu sem ég breytti í geymslu í sumar. Ég er reyndar ekki viss um að Kolgríma sé hrifin af þessu umstangi því í sumar gengum við úr rúmi fyrir gesti og hún var hreint ekkert sátt við það. Hún bara hoppaði ofan á gestunum og lét öllum illum látum þegar hún uppgötvaði að henni var ekki ætlað að sofa í rúminu sínu, eða mínu, eftir því hvernig á málið er litið.
Jólaundirbúningurinn hjá mér hefur snúist upp í að setja allt á hvolf. Það hefur ekki verið svona mikil óreiða á heimilinu í háa, háa herrans tíð. En skatan bíður í búrinu ásamt heimareyktu hangikjöti af veturgömlu þannig að þetta er nú að verða svolítið jólalegt þrátt fyrir óreiðuna.
Annars er nógur tími fram að jólum og ég hef ekki miklar áhyggjur. Ég er líka orðin svo gömul að ég er búin að læra það að jólin koma hvort sem manni vinnst tími til að skúra eður ei - ef allir komast heilir heim, þá er nóg að kveikja á kerti og hlusta á Heims um ból. Lífið er bara ljúft og gott og ég hlakka til jólanna eins og þegar ég var lítil, áður en ég lét telja mér trú um að jólin væru bara inn í hreinum skápum og tylltu sér bara niður á nýbónuð gólf.

|