01 desember 2005

Karlmannsleysi

Mig hefur sárlega vantað karlmann síðustu vikuna.
Ég sá að einhvers staðar í útlöndum er hægt að fá leigða jólasveina og var að spá í að panta einn en svo hljóp heldur betur á snærið hjá mér í dag.
Ég hitti grannkonu mína í kaupfélaginu og spurði hana hvort hún gæti séð af manninnum sínum smá stund um helgina og þegar hún vissi hvað hrjáði mig þá sagði hún "Elskan mín, ég fæ góðar græjur um helgina og ég skal bara hugsa til þín, ég sé manninn minn nú aldrei, hann er aldrei heima."
Þá er það vandamál leyst og jólaserían ætti að komast upp í þakskeggið á laugardaginn. Þungu fargi af mér létt.
Þrátt fyrir þessi góðu málalok kom ég hálf niðurbrotin heim úr búðaleiðangri með henni mágkonu minni. Ég spurði hana hvort ég fengi ekki að vera með henni í laufabrauðsbakstrinum en hún bara sagði þvert nei. Ég reyndi að láta þetta ekki slá mig út af laginu og keypti tvo pakka af útflöttu laufabrauði - við Kolgríma verðum þá bara tvær saman að skera út og steikja. Kolgríma verður að pressa kökurnar því það er ómögulegt að vera bæði að steikja og pressa. Ekki fer ég að láta hana standa yfir feitipottinum, það gæti kviknaði í henni.

|