12 nóvember 2005

Herbalife

Ég er alltaf að taka mikilvægar ákvaðanir.
Nú er ég búin að ákveða að skella mér á Herbalife-kúr þegar ég kem frá Köben. Maður getur nú ekki flætt út um allt og tekið allt plássið í stofunni þegar dætur og tengdasynir koma um jólin. Svo náttúrulega er Súbarúinn ekkert rosalega flottur á götunni með slagsíðu.
Bara kýla á það og skafa af sér smá mör. Hélt upp á þessa ákvörðun með því að fara í kaffi til Guðlaugar mágkonu og raða í mig bakkelsinu hennar. Hún bauð upp á heimabakaða súkkulaðirúllutertu og þessar líka gómsætu rjómavöfflur með hrútaberjahlaupi. Maður slær náttúrulega ekki hendi á móti svona kræsingum. Svo græddi ég eina krukku af hrútaberjahlaupi til að hafa með hreindýrahryggnum um hátíðarnar. Ég er alltaf svo heppin.
Ég er búin að var í taugaáfalli í gær og í dag. Vegabréfið mitt var svoleiðis gersamlega týnt. Ég fann útrunnin vegabréf og annarra manna vegabréf en gildandi vegabréfið mitt var algerlega horfið. Fann það loksins núna áðan í dóti sem ég hafði gengið svona pent frá í sumartiltektinni.
Þarna græddi ég rúmar 10.000 kr. (sem kostar að fá vegabréf með svona stuttum fyrirvara) svo þá er bara að finna út hvað ég get notað þær í Köben, auðvitað kaupi ég mér eitthvað fallegt fyrir þennan óvænta gróða.

|