22 október 2005

Laugardagsverkin

Nú á ég skilið að fá laugardagsorðu húsmæðra.
Ég er búin að ljúka hinni mánaðarlegu helgarhreingerningu. Miðað við hvað ég þurfti að skipta oft um skúringavatn hlýtur að vera langt síðan það var laugardagshreingerning hér á þessu heimili.
Ég er búin að fá nýjan skúringadisk og hann er svona rosalega góður að ég var hálftíma á undan áætlun að þrífa. Meira að segja þó svo að ég setti tvisvar í þvottavél og færi út að höggva í eldinn.
Nú get ég notað daginn til að læra og svo verð ég með smá matarboð í kvöld. Þetta á að verða voðalega huggulegt, kveikt upp í arninum, kjúklingur með hvítlauksostasósu, smjörsteiktum sveppum, grænmeti og ofnbökuðum kartöflukúlum. Í eftirmat verður svo döðluterta með kornfleksmarens, þeyttum rjóma og jarðarberjum.
Hvort sem þið trúið því eða ekki þá bauð ég karlmanni í þennan mat og hann afþakkaði pent. Jafnvel þó hér yrðu þrjár dömur og læða sem myndu halda honum félagsskap. Meðalaldur kvenveranna er rúm 30 ár (ef kisa reiknast með) og samt sagði hann bara nei takk. Er ekki í lagi með sumt fólk? Það er örugglega fullt af körlum þarna úti sem hefðu bara verið guðslifandifegnir að fá þetta boð.
Ég þreif sérlega vel í gestaherberginu því vinkona mín úr Kópavoginum kemur um næstu helgi og ég get ekki boðið henni að sofa í einhverju skítaskúkkelsi sem lyktar eins og fjóshaugur eftir metangaseiturhernað Egilsstaðabænda. Það er nefnilega svo furðulegt að allar gömlu vinkonurnar mínar úr Kópavoginum eru hver annarri myndarlegri. Það mætti halda að þær væru aldar upp í húsmæðraskólum, samt fór engin þeirra á slíka menntastofnun. Ég hlýt að vera fædd sóði því ég kemst ekki með tærnar þar sem þær hafa hælana. Samt eru þær alltaf að reyna að kenna mér eitthvað gagnlegt, eins og að búa til góðan mat.

|