12 október 2005

Með tærnar upp í loft

Ég var að brjóta heilann um það eftir Reykjavíkurtúrinn í gær hvort það væri svo sem nokkur skaði skeður þótt flugsamgöngur legðust af við höfuðborgina. Borgin myndi náttúrulega einangrast, en Akureyri gæti tekið við hlutverki Reykjavíkur að miklu leyti. Þangað er hægt að halda uppi flugsamgöngum frá Ísafirði, Egilsstöðum, Höfn og fleiri stöðum og við gætum sótt verslun, leikhús og læknisþjónustu þangað. Er ekki ágætt sjúkrahús á Akureyri? Er ekki líka bara fínt moll þarna?
Verst að ég á svo til enga vini og vandamenn á Akureyri, en það mætti reyna að bæta úr því, kynnast kannski einhverjum fyrir norðan. Alla vega held ég að helgarferðir til Akureyrar gætu bara verið ágætar.
Ég hef verið afskaplega dugleg undanfarna daga og komið ótrúlega mörgu í verk. Ekki samt að taka til á mínu stóra heimili, deyfi bara ljósin svo ég sjái ekki draslið.
Hef ákveðið að gera ekkert af viti í kvöld. Ætla meira að segja að kveikja á sjónvarpinu og hreiðra um mig í stofusófanum með tærnar upp í loft og klappa kisu.

Speki dagsins: Ef þér þykir ekki vænt um sjálfan þig er þess ekki að vænta að öðrum þyki það.

|