08 október 2005

Kolgríma

Ég var að velta því fyrir mér yfir morgunkaffinu hvernig lífið horfir við henni kisu minni.
Hún kom í heiminn í vor og þegar hún fór að hoppa um heiminn var komið sumar. Hún hefur leikið sér í garðinum mínum, innan um tré og runna, bitið gras, veitt fugla og flugur. Fyrsta bráðin hennar var áðnamaðkur sem hún lék sér með úti á palli. Lífið hefur verið ósköp ljúft hjá henni.
Þegar hún dreif sig út í morgun var smá hrím á pallinum og kisa greyið sem hjóp í gleði sinni út varaði sig ekki á þessu og skautaði eftir pallinum og féll út í frosið grasið. Skyldi hún mun hvernig garðurinn var í sumar meðan laufið var á trjánum en ekki á grasinu?
Kolgríma kemur úr fínu húsi á Seyðisfirði. Þar bjó hún hjá mömmu sinni og tveimur bræðrum sínum, hjónum með tvo drengi og labradorhundinum Bjarti.
Högni pabbi hennar Kolgrímu var bryggjuköttur sem lifði bóhemlífi við gamlar og aflagðar bryggjur. Hann var stór og mikill, með lepp fyrir auga, ráma wiskyrödd og bar þess merki að hafa marga fjöruna sopið. Hann hafði um sig hirð katta og sem hlustuðu á ævintýralegar frægðasögur um gamla daga, hættulegar veiðiferðir á eftir stórum rottum og alla hans sigra í lífinu.
Kisa litla í fína húsinu var ekki að þvælast niður á þessar hættulegu bryggjur þar sem vafasamt næturlíf bóhemkattanna fór fram. Högni hins vegar virti ekki landmæri ólíkra menningarheima og þegar hann frétti af þessari nettu og fallegu læðu þá dreif hann sig heim að fína húsinu og lokkaði kisu út með rámum ástarsöng.
Hún var svo lítið lífsreynd og varaði sig ekki á þessum fagurgala. Það sást til hans þar sem hann fíflaði kisu litlu og kom fram vilja sínum. Aumingja kisa. Í fyllingu tímans ól hún þrjá litla kettlinga og hún var svo döpur yfir örlögum sínum að hún vildi ekki að nokkur maður kæmi nálægt sér og kettlingunum. Eini sem fékk að heimsækja hana var Bjartur sem alla tíð var hennar stoð og stytta.
Þegar kisa fór að jafna sig á þessu öllu og sá hvað hún hafði verið auðtrúa, því auðvitað kom Högni aldrei að kíkja á afkvæmin, þá tók hún til sinna ráða. Hún bar alla kettlingana yfir í bælið hans Bjarts og skildi þá eftir þar. Bjartur skyldi gjalda fyrir það sem kynbróðir hans í kattaheimi hafi komið henni í.
Upp frá því var Kolgríma í fóstri hjá Bjarti. Hann hugsaði vel um hana og gætti þess að hún hrykki ekki ofan í kok á honum þegar hann var að þvo henni og hún festist á hans stóru tungu.
Svo var það að við Kolgríma hittumst í veislu í fína húsinu og þá kom okkur saman um að það færi best á því að hún kæmi upp í Hérað og myndi búa hjá mér.
Þannig atvikaðist það að hún kisa mín kom inn í líf mitt.

Speki dagsins: Að elska er að gefa sig á vald þjáningarinnar.

|