Tímamótablogg
Þetta er tímamótafærsla á bloggferli mínum.
Hingað til hef ég þurft að skrifa það sem mér hefur legið á hjarta hér heima, senda það með hotmailinu upp í vinnu því ég kemst ekki inn á outlookið í tölvunni minni. Ástæðan er sú að ég man ekki leyniorðið. Svo hef ég sent færslurnar úr outlokkinu í vinnunni inn á Lötu Grétu af því að það er ekki hægt að senda þetta úr hotmailinu. Flókið!!! Eina leiðin til að fá óbrenglaða stafi er að nota outlook segir Tóta litla.
Í dag stóð Tóta litla yfir mér til að sjá hvers vegna ég fengi ekki upp rétt tákn og glugga þegar ég ætlaði að blogga. Og viti menn, ég hafði ekki lært rétt aðgangsorð. Tóta litla kenni mér það og nú kemst ég inn í bloggheiminn aðaldyramegin.
En hvernig í ósköpunum á maður að fara að því að læra öll þau númer og aðgangsorð sem maður þarf að kunna til að vera virkur í samfélaginu? Maður þarf að læra einfalda hluti eins og húsnúmerið sitt, heimasímann, bílnúmerið (sem mér gekk illa að læra) og kennitöluna. Svo þarf maður að kunna númerin á bankareikningunum, leyninúmerin inn á þá, pinnnúmer á debet- og krítarkortum, pinnnúmer í gsm-símanum, leyniorð og leyninúmer inn á tölvupóstinn og ég hef þrjú tölvupóstföng, fyrir utan þetta hérna í outlookinu mínu sem ég kemst ekki lengur inn á. Það eru stafa- og númerarunur inn á Ugluna hjá HÍ, svo eru það afmælisdagar vina og vandamanna, aðgangsorð að heimabankanum og svona má áfram telja.
En ég get sagt ykkur það að þrátt fyrir að ég eigi í erfiðleikum með öll þessi númer þá er eitt númer sem ég kann alveg utanað. Það er 16 stafa númerið á krítarkortinu mínu, gildistíminn og þriggja stafa öryggisnúmerið. Þetta kemur reyndar til af því að hann Finnur minn gerði krítarkortið mitt einu sinni upptækt og þó ég sé búin að hafa krítarkortið til frjálsra afnota í nokkur ár þá kann ég númerið ennþá.
Neyðin kennir naktri konu að spinna, var einu sinni sagt, en mér gangaðist betur að læra kortanúmerið, ég hafði engin not fyrir garnið.
Speki dagsins: Ég er ekki að bera á móti því að konur séu heimskar. Guð skapaði þær jú til að vera jafningja karla.