Kvosin
Kolgríma liggur í fanginu á mér og malar. Gott að fá góðar móttökur þegar maður kemur heim í kotið.
Ég skrapp snögga ferð til Reykjavíkur. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað hann er napur strengurinn frá Esjunni, suður Lækjargötu og í nágrenni Tjarnarinnar. Ég held að Kvosin sé kaldasti staður á jarðarkringlunni.
Fjölskylda mín bjó nokkur ár í Þingholtunum. Frumburðurinn var einn vetur í leikskóla vestan Tjarnarinnar og það hvarflaði stundum að mér að við yrðum úti á leið okkar um Skothúsveginn. Einu sinni var ég að brjótast heim með barnið í fanginu í blindbyl. Þegar við börðumst í storminum yfir Tjarnarbrúnna stoppaði ungur bílstjóri og bauðst til að aka okkur heim. Ég held hann hafi séð fyrir sér að þarna væri sagan í ljóði Jónasar Hallgrímssonar, Móðurást, að endurtaka sig á ofanverðri 20. öldinni. Ég þakkaði ökumanninum hugulsemina en sagði honum að þetta yrði auðveldara þegar við kæmum yfir Sóleyjargötuna. Var samt glöð í hjarta mínu yfir að í borginni fyrirfinndist miskunnsami Samverjinn.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgun á leið minni frá Fálkagötunni niður á Lækjartorg. Eyrun á mér voru rétt frosin eftir þennan göngutúr og ég var með grýlukerti á nefinu.
Eftir vinnu skruppum við Visa vinkona mín og ég í Kringluna. Sáum svo sem ekkert sem við vildum hafa með okkur heim, en auðvitað verður maður að kíkja í eitt moll í kaupstaðarferð.
Speki dagsins: Græddur er geymdur eyrir - eða er það kannski gleymdur er eyddur eyrir.