14 október 2005

Símabögg

Ég var að spjalla við Nínu í símann í gærkvöldi. Í miðri slúðru hringir hinn síminn - til hvers er maður að hafa tvo síma? Nú, en þar var myndarleg karlmannsrödd, ávarpaði mig með nafni og kynnti sig. Ég hélt að nú hefði hlaupið á snærið hjá mér, en nei, aldeilis ekki. "Ég er að hringja frá Stuð tvu og er með tilboð sem þú getur ekki hafnað." Áður en maðurinn las mér allan pistilinn tókst mér að stoppa hann og sagði að ég hefði ekki áhuga á Stöð tvö. "Já, en Idolið er byrjað." Ég sagði honum að mér væri sama, ég horfði nánast ekkert á sjónvarp og það varðaði mig litlu hversu margar stöðvar væru í sjónvarpinu þegar ég kveikti eiginlega aldrei á því. "Já, en þetta kostar bara 150 kall á dag." Nú er ég búin að reikna það út að ég get grætt rúmar 4.000 kr. á mánuði með því að hafna þessu tilboði.
Fyrir nokkrum árum ákvað ég að drýgja tekjur mínar með því að gerast símasölukona fyrir útgáfufyrirtæki. Það var skelfilegt, ég entist tvö kvöld. Ég skildi allt of vel fólkið sem ég var að ofsækja.
Ég hringdi í einn karl sem var nokkuð góður.
Ég byrja á að bjóða honum Vikuna
Fórnarlambið: "Nei, er hún ekki bara fyrir konur."
Þá bauð ég honum blað um stangveiði.
Fórnarlambið: "Stangveiði, nei, það er allt of dýrt sport fyrir mig."
Þá reyndi ég að bjóða honum Fiskifréttir.
Fórnarlambið: "Já, en góða mín, ég er ekki á sjó."
Gestgjafann?
Fórnarlambið: "Gestgjafann, má ég nú heldur biðja um staðgóðan mat en þessa smárétti sem þar eru, maturinn í Gestgjafanum er ekki upp í nös á ketti."
Loks var það rúsínan í pylsuendanum, hann hlyti að falla fyrir Bleiku og bláu.
Fórnarlambið: "Elskan mín góða ég er löngu vaxinn upp úr því."

Ég lét þetta gott heita og hef ekki reynt fyrir mér sem sölukona síðan - ekki mín deild.

|