17 október 2005

Helgin

Helgin var bara góð þegar upp er staðið.
Við Nína fórum á alveg óborganlega tónleika með Hvanndalsbræðrum á föstudaginn. Ekkert smá flottir í tauinu þessir gleðipinnar. Samt ekki með sama búningahönnuð og Stuðmenn. Ég skemmti mér alveg konunglega og það gerðu allir hinir tónleikagestirnir líka.
Á laugardag rambaði ég á barmi taugaáfalls. Það skildu himinn og haf milli mín og námsefnisins sem ég á að vera að læra. Hringdi í Maríönnu skólasystur mína og grenjaði fyrir hana í símann, þetta er svo erfitt, þetta er svo flókið, þetta er svo gersamlega óskiljanlegt. En Maríanna minnti mig á að ég væri aumingi ef ég gæfist upp.
Samþykkti allt sem Maríanna sagði og það fór aðeins að rofa til í hausnum á mér í gær, en samt ekki að gagni fyrr en ég hafði farið að ráðum skólasystur minnar á Akureyri og hlustað á fyrirlestrana á netinu.
Ráðgert var að nokkrar gamlar gleðikonur mættu til mín í sunnudagsmorgunmat, en þar sem þær þurftu að drekka skógarmannaskál á laugardagskvöld risu þær ekki árla úr rekkju á sunnudag - það rís náttúrulega enginn árla úr rekkju daginn eftir skógarmannagleðskap. En Nína mætti og við höfðum alla vega nóg að borða.
Slúttaði svo helginni í fimmtugsafmæli í gærkvöldi. Flott veisla, hreindýrasúpa, hreindýrapaté og alls konar góðgæti.

|