30 október 2005

Sunnudagur

Vaknaði í morgun við að Kolgríma var á tásluveiðum.
Kisa er tekin upp á því að veiða á mér tærnar í morgunsárið. Það er ekki beint notalegt að vakna upp með kattaklær á kafi í stórutánni. En kisu finnst þetta afskaplega skemmtilegur leikur.
Kolgríma hefur tamið sér nýja drykkjusiði. Nú stekkur hún upp í baðvaskinn og bíður þess að ég skrúfi frá krananum svo hún geti fengið sér vatnssopa. Hún hefur komið mér í skilning um að henni líki ekki tannkremið mitt (þetta ódýra úr Bónus) og að henni líki ekki ef ég þvæ vaskinn ekki nógu vel eftir að ég hef lokið við að tannbursta mig. Hún notar alveg sömu tjáningaraðferðir og hún notar til að sýna mér að henni líki ekki maturinn sem henni er ætlaður. Hún er nefnilega afskaplega matvönd og ef ég set eitthvað miður gott í skálina hennar teygir hún framloppurnar fram á gólfið og viðhefur leikræna tilburði eins og hún sé að moka sandinum yfir það sem fer í klósettið hennar.
Kolgríma dreif sig út eftir að hún var búin að koma mér á lappir. Þó það hafi frosið í nótt er efsta skænið á snjónum ekki alveg nógu traust fyrir hana og af og til lætur það undan og hún er á kafi í snjóskafli.
Hún finnur upp á ótrúlegustu hlutum. Hafið þið séð kött klifra í rifsberjarunna? Það er ekki laust við að það sé skemmtileg sjón. En Kolgríma gefst ekki upp á að finna sér eitthvað skemmtilegt til dundurs.
Fyrir hálfum mánuði var ég grenjandi hér yfir lítilli velgengni í skólanum. Þá var ég að vinna verkefni og nú er ég búin að fá niðurstöðurnar úr því og ég hef svo sannarlega ekki ástæður til að grenja meira. Ef ég næ ekki prófinu um jólin er ástæðan bara sú að ég hef ekki verið dugleg að lesa, ekki að námsefnið hafi vaxið mér yfir höfuð.
En svona til að fyrirbyggja jólafall þá verður dagurinn notaður til að drekka í sig fróðleik um íslenskt mál að fornu.

|