Heilabrot
Ég er mikið að brjóta heilann.
Mér datt í hug þegar ég heyrði fréttir af málaferlum Bubba út af fyrirsögninni "Bubbi fallinn" hvort ég gæti ekki líka farið í mál við útgáfuna, ef ég hefði keypt blaðið sem skartaði þessari fyrirsögn á forsíðu. Ég gæti örugglega gert kröfu um miska- og þjáningabætur, en til vara að kaupunum yrði rift.
Ég myndi ber því við í málinu að fyrirsögnin hefði vakið hjá mér mikinn þorsta í slúður- og hrakfallasögur af fræga fólkinu, en ég hefði liðið ómældar þjáningar þegar ég uppgötvaði að ég hefði keypt köttinn í sekknum, látið hafa mig að fífli og að slúðurþorsta mínum hefði ekki verið svalað. Látið vekja upp hjá mér miður góðar illmælgisfýsnir sem síðan hefði ekki verið fullnægt.
Blaðamenn eru alltaf að segja að við almenningur eigum rétt á að vita hvað fram fer nánast á baðherbergjum fræga fólksins og það er þá lágmarks krafa að þeir flytji okkur réttar fréttir en séu ekki að gefa eitthvað í skyn á forsíðu sem síðan er ekki inn í blaðinu sem maður hefur hætt mannorði sínu við að kaupa.
En því miður keypti ég ekki þetta blað svo ég get ekki látið reyna á þetta fyrir dómi.
En annars eru góðir dagar framundan hjá mér. Frumburðurinn flýgur sem engill austur á Fljótsdalshérað í dag og dvelur nokkra daga hjá aldraðri móður sinni. Það er önnur Hafnarferð framunda hjá mér og svo bara eitthvað meira af spennandi hlutum sem gera lífið ljúft og skemmtilegt.
Lambið mitt kom heilt á húfi frá Instanbul til Kaupmannahafnar með Turkish airlines í fyrradag og ég get ekki neitað því að mér finnst öruggara að vita af þessari elsku í Danmörku en í Tyrklandi.
Barnabarnið hennar Nínu vinkonu minnar verður skírt í dag og ég fæ að vera kaffikonan í veislunni.