27 nóvember 2005

Menningarhelgi

Frábær helgi.
Ja, kannski fyrir utan það að ég var ekki eins dugleg og ég hafði ætlað mér, en það er nú ekki í fyrsta skipti sem ég held full af dugnaðarfyrirheitum inn í helgina en læt svo eftir mér að vera löt. Reyndar vann ég smávegis í verkefni sem ég tók að mér til að hafa aðeins upp í sukkið okkar Vísu vinkonu um síðustu helgi.
Fór til mömmu í gær og við tvær áttum ljúfa stund saman. Allt annað líf eftir að ég fékk Subarúinn, nú get ég skotist á Seyðisfjörð og heimsótt mömmu þegar mér hentar en þarf ekki að grenja utan í systkinum mínum um það hvenær þau komi til byggða og hvenær ég geti fengið far með þeim niður eftir.
Í dag brunaði ég inn í Skriðuklaustur og hlustaði á 5 rithöfunda lesa úr verkum sínum. Það var nú aðallega Gunnar Hersveinn sem dró mig á svæðið. Ég er búin að bíða eftir bókinni hans síðan í sumar og ég keypti mér hana í Reykjavík um daginn. Mæli með Gæfusporum á hvert heimili, þetta er alveg frábær bók. Gunnar Hersveinn var samferða mér út í Egilsstaði og ég skutlaði honum á flugvöllinn. Fékk þarna gott tækifæri til að spjalla lítillega við hann um bókina.
Hinir höfundarnir voru mjög athyglisverðir, sérstaklega kom Jón Kalman mér á óvart. Bækur Yrsu og Gerðar Kristnýjar eru báðar áhugaverðar. Svo var Guðlaugur Arason stórskemmtilegur með Kaupmannahafnarbókina. Hann sagðist hafa fengið nokkrar kvartanir yfir þyngdinni á henni, þ.e.a.s. pappírinn er svo þungur. Enda nennti ég ekki að taka bókina með til Köben um daginn þó ég hafi verið búin að eignast hana áður en ég fór.
Það var stutt stopp heima því við Guðlaug mágkona fórum saman út í kirkju að hlusta á Messías eftir Handel. Það var náttúrulega bara himneskt. Erla Dóra Vogler og Steinrún Ótta Stefánsdóttir sungu einsöng, ásamt fleirum, en þær eru alveg guðdómlegar að hlusta á. Merkilegt hvað margir góðir söngvarar hafa vaxið úr grasi hér á Héraði undanfarin ár. Erla Dóra hefur svo fágaða og glæsilega framkomu og fallega rödd - ég ætla sko ekki að missa af því ef hún heldur tónleika hér.
Ég hef ekki frétt af neinum sem bakaði Góðu nágrannakökuna meðan ég brá mér að heiman um daginn. Bakaði virkilega enginn köku?

|