22 nóvember 2005

Dekurdúlluferð

Þá er ég komin heim aftur.
Þetta var í alla staði yndisleg ferð. Dekrið byrjaði strax og ég kom til Reykjavíkur á afmælinu mínu. Fór að heimsækja Ingu vinkonu mína á leirverkstæðið og var auðvitað leyst út með gjöfum. Ég má aldrei segja við Ingu að eitthvað sé sérstaklega fallegt hjá henni, þá vill hún bara gefa mér það. Þess vegna verð ég helst að hafa sem fæst orð um alla hennar fallegu hluti.
Þá lá leið mín á snyrtistofuna til Kristrúnar og eftir að hún hafði plokkað á mér augabrúnirnar færðist svo mikil værð yfir mig að ég steinsofnaði og svaf í næstum tvo tíma. Kristrún varð að segja mér áður en ég fór hvað hún hafði gert við mig því það fór allt fram hjá mér. Þetta var alls konar andlitshúðdekur og ég fór frá henni með nýtt andlit.
Daginn eftir flugum við frumburðurinn og ég til Kaupmannahafnar og hittum lambið mitt. Ég átti fjóra dásamlega daga með dætrum mínum. Við fórum í búðir, í Tívolí, Nýhöfnina, í bíó og út að borða. Lambið mitt sýndi mér skólann sinn sem er langt út í sveit og það var gaman að koma þangað.
En kuldinn í Kaupmannahöfn - ég var rétt orðin úti í Tívolí. Það er lang hentugast að gera öll innkaup á Fiskitorginu því þar er hellingur af búðum og maður er bara inni. En auðvitað tilheyrir að kíkja í búðir á Strikinu.
Indíánarnir mínir hafa ekki allir farið til síns heima í haust. Það voru nokkrir eftir og voru þeir að spila á Ráðhústorginu. Þeir hefðu samt betur farið heim með hinum því þeir voru ekkert sérstaklega skemmtilegir. Alla vega finnst mér meira gaman að heyra tónlist frá Andersfjöllum en Abba í Andersfjöllum. Þetta var frekar þunnur þrettándi.
Við mæðgur fundum alveg frábæran ítalskan veitingastað í gamla háskólahverfinu. Staðurinn var huggulegur og kósí, maturinn góður og rúsínan í pylsuendanum, þjónarnir voru hver öðrum fallegri - nema kannski einn sem var svolítið nördalegur, en það gerði ekkert til hann var ekki að uppvarta við okkar borð. Gegn vægu gjaldi get ég upplýst konur á leið til Köben um nánari staðsetningu á þessum gullfallegu ítölsku þjónum.
Lappirnar mínar verða í marga daga að jafna sig eftir allt þetta plamp á steinstrætum. Þær eru svo bólgnar, þær minna mest á súlurnar á Akrapolis.
Lenti í þeirri óvenjulegu uppákomu í Reykjavík í dag að þurfa að segja leigubílstjóra til vegar. Hann rataði ekki frá BSÍ og út á Fálkagötu og vildi helst fara einhverja bölvaða vitleysu. En það tókst að hafa stjórn á honum og ég náði fluginu heim á Hérað í kvöld.
Kolgríma var auðvitað kát að sjá mig en kæti hennar var mest yfir að fá loksins að fara út að leika sér eftir að hafa verið lokuð inni í 5 daga.

|