08 desember 2005

Áhyggjur

Ég mæti algerlega ósofin í vinnuna í dag.
Ástæðan er sú að þegar ég kom heim af jólahlaðborði nr. 2 í gærkvöldi vildi Kolgríma kíkja út. Ég hélt að það væri nú í lagi því undanfarið hefur hún ekki stoppað lengi úti. Áttaði mig ekki á því að þar sem hitastigið á Héraði fór úr fimbulkunda niður undir frostmark í gær þá fannst kisu fínt að komast út.
Svo bara kom þessi elska ekkert þegar ég kallaði. Það endaði með því að ég fór að hátta en gat auðvitað ekkert sofnað þar sem kisa var týnd.
Tíminn leið og ég var farin að sjá fyrir mér alls konar slys og hamfarir sem kisa hefði lent í. Búin að semja dánartilkynningu í Moggann: Elskuleg kisa mín Kolgríma Högnadóttir... blóm og kransar afþakkaðir... en þeim sem vildu minnast hennar...
Kl. 03.30 heyrði ég þennan fagra bjölluhljóm úti í garði. Ef ég hefði verið fjögurra ára hefði ég stokkið út að glugganum og búist við að sjá jólasveinahreindýr, en ég stökk út í dyr og kisa með allar sínar bjöllur um hálsinn kom skokkandi inn eins og hefðarfrú - mjálmaði smá, eins og hún væri að segja mér hvað hún hefði verið að bardúsa, en tríttlaði svo inn í eldhús að matardiskunum sínum.
Guð hvað ég var fegin. Gaf kisu gott að borða og það var notalegt að heyra tipplið hennar á gólfinu þegar hún elti mig inn í ból og kom sér þar makindalega fyrir og malaði mig í svefn. Nú liggur þessi elska þar og ég get ekki búið um rúmið en fer alveg ósofin í vinnuna.

|