05 desember 2005

Eldhúsguðinn

Þegar ég var lítil stelpa að alast upp á Neðstutröðinni í Kópavoginum heyrði ég mömmu stundum ákalla einhverja dularfulla veru sem ég hélt að væri einhvers konar guð. Ég las reyndar aldrei um þennan guð í biblíusögunum og þessi guð virtist eingöngu svífa yfir eldhúsinu hennar mömmu.
Ef eitthvað fór úrskeiðis hjá mömmu heyrði ég hana segja "Það er eins gott að hún frú Blöndal sjái ekki til mín núna." Mamma var reyndar sem betur fer myndarleg húsmóðir svo hún talaði ekki daglega við þennan guð sinn.
Það var ekki fyrr en ég komst sæmilega til vits og ára að ég skildi að þessi eldhúsguð hennar mömmu, hún frú Blöndal, hafði verið skólastýra á húsmæðraskóla sem mamma hafði verið á mörgum árum áður en ég fæddist, á Húsmæðraskólanum á Hallormsstað.
Ég hef erft þessa áráttu hennar mömmu nema hjá mér er þetta "Það er eins gott að hún mamma sjái ekki til mín núna." Það er einmitt það sem ég er búin að vera að tauta við sjálfa mig í allt kvöld.
Ég sem sagt réðst í það verk að sauma mér nýjar jólagardínur í eldhúsið, eins og ég lét getið um fyrir nokkrum dögum. Ef ég hefði munað hvað það er mikið verk að sauma gardínur hefði ég látið þetta eiga sig og keypt mér tilbúnar gardínur í Rúmfatalagernum. Ég sá einmitt í bæklingi frá þeim jólagardínur sem ég hefði gjarnan vilja eiga.
En það er of seint í rassinn gripið, ég búin að sníða og mæla og langt komin með að sauma. Og það er sko eins gott að hún mamma sjái ekki saumaskapinn. Ef svo ólíklega vill til að hún fari að skoða hvernig þetta er faldað hjá mér þá segi ég henni bara að ég hafi keypt þessar gardínur í Kolaportinu fyrir skid og ingenting.

|