12 desember 2005

Heim í heiðardalinn

Þetta hlýtur að hafa verið síðast höfuðborgarferðin á árinu.
Ég sem sagt var að koma frá Reykjavík þar sem ég fór þvílíkum hamförum í jólagjafakaupum að ég uppgötvaði í gærkvöldi að ég hef keypt of margar jólagjafir.
Inga vinkona var með opið hús á leirverkstæðinu sínu og ég fór þangað og keypti eitt og annað, m.a. fékk ég risa stóra skál beint úr ofninum. Svo var bara hausverkurinn að koma henni heilli heim. Var búin að ráðgera að sitja undir henni í flugvélinni en mér féllust hendur þegar ég kom inn í vélina og sá að ég átti að sitja við hliðina á karli sem flæddi yfir hálft sætið mitt. Neyddist því til að ganga vel frá skálinni upp í farangurshólfinu, en þetta slapp og nú er þessi fína skál komin inn í stofu.
Svo var ég með myndir úr innrömmun þannig að það var eins og ég færi að flytja lítið listagallerí.
Önnur myndin er máluð af Jóni Guðmundssyni fyrrverandi barnaskólakennara. Hann gaf mér hana í sumar, en á henni eru nokkrar gleðikonur úr Gleðikvennafélagi Vallahrepps að dansa framan við Vallaneskirkju - virkilega lífleg og skemmtileg mynd.
Þegar ég ók inn götuna heim að húsinu þakkaði ég strokinum enn og aftur fyrir að hafa skilað mér inn í þennan stóra systkinahóp því minn ástkæri elsti bróðir var búinn að hengja jólaseríuna í þakskeggið.

|