09 desember 2005

Hobbitahola

Var spurð að því í ræktinni í morgun hvort ég byggi í hobbitaholu.
Ástæðan; mætti með glerflís í einni táslunni eftir að hafa rekið hausinn í kúpul í eldhúsloftinu hjá mér í gærkvöldi.
Til að gera stutta sögu langa. Ég sem sagt var að þvo eldhúsgluggana og slengdi hausnum svona kirfilega í ljósakúpulinn ofan við eldhúsvaskinn að kúpullinn losnaði úr festingunni og flaug á eldavélina þar sem hann fór í milljón mola. Af minni ævalöngu slysni þurfti ég endilega að fá eina flís í tásluna, en það má svo sem segja að það hafi verið vel sloppið.
Með góðri aðstoð kisu tókst mér að klára títtnefndar jólagardínur og koma þeim upp. Kisa togaði efnið úr saumavélinni jafnóðum og saumavélin vann. Svo þegar kom að því að strauja tríttlaði kisa á eftir mér inn að strauborði og sá um að strekkja gardínurnar niður af strauborðinu svo efnið lægi vel slétt undir straujárninu. Loks elti kisa mig inn í eldhús og fylgdist með mér þar, allt þar til kúpullinn fór á flug, en þá hvarf hún og ég sá hana ekki í klukkutíma.
Nú er eldhúsið mitt voða fínt og nýsaumaðar jólagardínurnar bara fjarskafínar, alla vega ef ég stend ekki of nálægt þeim og tek af mér gleraugun.

|