17 desember 2005

Ruglingslegur jólaundirbúningur

Ég er alveg að týna sjálfri mér í jólaundirbúningnum.
Hann fellst þó aðallega í því að gera áætlanir sem ekki standast.
Í dag ætlaði ég loksins að baka laufabrauð. Fyrst uppgötvaði ég að kökurnar sem ég keypti fyrir margt löngu voru ónothæfar svo ég brunaði í kaupfélagið okkar og varð mér út um aðrar.
Svo var ég búin að hafa allt tilbúið, brettin, fötin, smjörpappír, eldhúspappír og hnífa og beið bara eftir henni systur minni sem ætlaði að skera og baka laufabrauð mér til samlætis.
Þá var bankað og það var ekki hún systir mín heldur þeir feðgar Þröstur og Sigurður. Laufabrauðsgerð var frestað einu sinni enn og við fórum upp í Vallanes að setja ljós á leiðin í brunagaddi. Ljósin eru komin á sinn stað en við gátum ekki kveikt á þeim þar sem garðurinn var rafmagnslaus og Eymundur staðarhaldari suður í Reykjavík að selja höfðuborgarbúum grænfóður. Þetta verður lagfært á morgun.
Systir mín ætlar að koma í rauðabítið kl. 10.00 í fyrramálið og við hefjumst þá handa áður en ég breyti áætlun og fer að gera eitthvað allt annað.
Gærdagurinn var samfelld veisla. Fyrst föstudagsmorgunmatur í vinnunn, þá mini-jólahlaðborð á Nielsen í hádeginu með föstudagsmatarklúbbi kvenna á Héraði. Veit reyndar ekki af hverju þetta var kallað mini-jólahlaðborð, mér finnst að öll jólahlaðborð eigi að vera eins og þetta var, hæfilega margir réttir og maður fór ekki alveg eins og troðin gæs út af veitingahúsinu.
Um kvöldið fór ég svo í fínt konuboð á Hallormsstað þar sem húsmóðirin varð að kenna okkur að neyta veitinganna því þær voru svo framandi. Hollenskar vöfflur sem ekki mátti bíta í fyrr en þær voru búnar að standa hæfilega lengi ofan á kaffibollunum, ítalskar grjótkökur sem varð að dýfa í kaffi áður en bitið var í þær, ef manni var annt um tennurnar sínar það er að segja. Svo alls konar annað góðgæti. Rúsínan í pylsuendanum var svo að við vorum allar leystar út með gjöfum og það ekki neinum slordónagjöfum heldur rosalega flottum húfum sem húsmóðirin hefur verið að dunda sér við að búa til.
Í morgun var svo veisla í Heislubót. Eftir slökunarspinning við kertaljós og einhverja exotiska leikfimi hjá Ástu Maríu var sest niður með kaffi, konfekt og ávexti - afar huggulegur líkamsræktartími. Þórveig meira að segja dreifði konfekti í miðjum tíma meðan Auður Vala lét okkur líða á hjólunum um draumheima.
Ég segi bara ekki annað en að það er eins gott að ég á Herbalife milli þess sem ég nýt alls sem desembernægtarborðið hefur upp á að bjóða. Annars kæmist ég ekki fyrir í stofusófanum innan um fjölskylduna á aðfangadagskvöld.

|