23 desember 2005

Þorláksmessa

Búin að vera í tveimur skötuveislum í dag.
Fyrst með vinnufélaganum og vinnunágrönnunum í Söluskálanum og svo núna í kvöld hér heima með vinum og vandamönnum. Þetta er ágætur siður að eta rotnaðan fisk áður en steikarátið mikla hefst, maður kann þá betur að meta allan veislumatinn. Maður borðar svo góðan mat allt árið svo það er hausverkur að finna út hvað er nógu mikill veislumatur til að gera sér dagamun með á jólunum.
Eins og fram hefur komið á blogginu mínu á ég tvo tengdasyni. Þeir koma báðir frá fyrrum kommúnistaríkjum. Sá eldri er frá Varsjá í Póllandi en sá yngri er frá Neskaupstað í Norðfirði.
Járni, Norðfirðingurinn borðar skötu í hverri viku svo það var nú ekki vandamál að gefa honum að borða. Mirek, sá pólski, er aftur á móti mjög jákvæður að bragða allan þennan undarlega mat sem ég ber á borð fyrir hann. Hann hefur meira að segja komið með okkur á þorrablót og smakkaði þar á öllu, jafnvel the rotten shark.
Ég hafði nokkra rétti til vonar og vara svo allir myndu standa mettir upp frá borðum í kvöld og kom það sér vel þar sem dætur mínar borða ekki skötu, uppeldið hefur eitthvað brugðist hjá mér. Mirek lét sig hafa það að smakka skötuna, sagði að það væri svo ógeðslega vond lykt af þessum mat að hann yrði að smakka. Fékk sér meira að segja aftur á diskinn en nú notaði hann sömu aðferð og þegar menn svæla í sig tequila, þ.e.a.s. hann hafði sítrónu með.
Ég myndi vilja vera fluga á vegg þegar hann talar við vini sína í Póllandi og segir þeim frá matnum hjá tengdó.
Í kvöld er ósköp huggulegt hér í kotinu, krakkarnir allir í stofunni að horfa á sjónvarpið og það er ljúft að hafa allan hópinn kátan og glaðan í húsinu.
Kisurnar eru enn svolítið að hvæsa hvor á aðra og slást smávegis, en ég held að þetta fari að lagast. Mía Reykjavíkurkisa varð að fá róandi áður en hún flaug austur og hún var alveg uppdópuð fyrsta kvöldið sitt hér. Það var ekki alveg laust við að það væri fyndið að sjá hana hvæsa á Kolgrímu. Þetta var svo máttleysislegt og Mía með ranghvelfd augun, eiginlega bara eins og þvoglumælt fyllibytta að þenja sig "Góa ðegiðu og laddu mig í vriði, hvvvaaas."
Einhvern veginn er ég ekki alveg búin að meðtaka það er aðfangadagur á morgun. Þá er bara eitt til ráða, kveikja á gömlu Gufunni, hlusta á jólakveðjurnar og fá jólastemninguna beint í æð.

|