26 desember 2005

Jólin

Eta, sofa, vakna og halda áfram að eta.
Svona hafa jólin verið á þessum bæ. Stanslaust át og maður er að fara í skrokknum af allri þessari hvíld. Það er svona rétt farið upp úr bólinu og kíkt í búrið en svo drífur maður sig aftur í rúmið áður en sængin kólnar.
Kannski smá ýkjur en ekki miklar.
Þetta eru búnir að vara afar ljúfir dagar og dæturnar og tengdasynirnir hafa farið vel í stofusófanum. Öllum hefur samið vel nema að kisurnar hafa hvæst svolítið á hvor aðra, sérstaklega eftir að það rann af Reykjavíkurkisunni Míu. En það hagar svo vel til hér í húsinu að Mía hefur getað haft forstofuna og forstofuherbergið fyrir sig og sína fjölskyldu og hægt er að loka kisurnar af án þess að móðga þær.
Kolgríma er hálf áttavillt eftir þessar tímabundnu breytingar á heimilinu. Hún sefur ein í stofunni, finnst sennilega ekki nógu rúmt um okkur báðar í geymslunni. Svo finnst henni ekki sanngjarnt þegar verið er að skamma hana frá matardöllum Míu en Kolgrímu finnst maturinn í þeim döllum miklu girnilegri en maturinn í hennar döllum, þó það sér sams konar matur. Ég verð að viðurkenna að mér líður ekki ósvipað og þegar einhver leyfði sér að finna að við dætur mínar, þegar verið er að skamma Kolgrímu mína, þessa elsku.
Annars höfum við Kolgríma haft það eins og Lýður lottóvinningshafi og haft humar í morgunmat. Við höfum ekki geta haft önd í hádegismat en kunningi minn ætlaði á andaveiðar um jólin svo kannski rætist úr hjá okkur kisu.
Aumingja Kolgríma varð fyrir hræðilegum hrakförum í gær. Fyrst gerði ég mér lítið fyrir og settist ofan á hana þar sem hún var að fá sér fegrunablund á borðstofustól. Grey kisa og ég sem var úttroðin af jólamat ofan á alla þessa miklu daglegu líkamsþyngd - þetta er svona eins og ef stór fíll settist ofan á mig. Svo til að kóróna daginn fyrir kisu þá steig ég á skottið á henni. Hún er sem betur fer búin að fyrirgefa mér þetta og er ljúf og góð við mig. Ég hengdi út þvott í dag og kisa kom til mín, hoppaði með sínar forugu loppur ofan í balann svo ég þurfti að þvo helminginn af þvottinum aftur.

|