12 janúar 2006

Skorinn köttur

Ég vona að kisa eigi einhvern tíma eftir að fyrirgefa mér.
Þessi litla vinkona liggur uppdópuð í búrinu sínu og er rétt að rumska eftir rúmlega 6 tíma svæfingu. Ég er búin að fara oft og athuga hvort að hjartað slái, hvort hún andi, hvort allt sé í lagi. Það hefur verið skelfilegt að horfa á þetta grey liggja þarna hreyfingarlaus með galopin augun, alveg eins og hún væri bara dáin. Ég hef ekki komið neinu í verk af því sem ég ætlaði.
Ég á örugglega ekki eftir að sofa mikið í nótt. Ætli ég verði ekki bara að taka frí í vinnunni á morgun. Hvernig er það, á maður ekki rétt á að vera heima hjá veikum kisum eins og veikum krökkum? Best að lesa kjarasamninginn, aðallega smáa letrið. Annars hef ég voðalega lítið kynnt mér kjarasamninginn, samt hef ég unnið á sama stað í bráðum 14 ár.
Einu sinni þegar ég fékk nýjan yfirmann kynnti ég honum að ég hefði samið um það við forvera hans að ég mætti ekki í vinnu á aðfangadag og ekki á gamlársdag og það væri ekki dregið af laununum mínum. Svo kynnti ég honum mjög sérstakt yfirvinnukerfi sem ég hafði samið um. Hann bara sagði já og amen og samstarfsmaður minn spurði mig hvers vegna ég héldi því bara ekki líka fram að ég þyrfti aldrei að vinna á mánudögum og það myndi ekki skerða launin mín. Ég hafði bara ekki hugmyndaflug í það.
En Kolgríma mín er hárlaus á mallanum með langan skurð. Dýralæknirinn var búinn að segja mér að koma kl. 17.00 og sækja hana, en svo hringdi hann á slaginu 16.00 og sagði að kisan væri tilbúin, bara eins og hún væri bíll sem hefði farið í viðgerð. Ég yrði að koma strax og sækja hana því hann væri að fara í áríðandi útkall út í sveit - eins og eitthvað sé meira áríðandi en hún kisa mín.
En hvað um það, ég rauk niður á spítala og sótti kisu en gleymdi að fá svona grunnupplýsingar eins og það hvað hún myndi sofa lengi. Þess vegna hef ég verið hálf óróleg út af öllum þessum þyrnirósarsvefni hennar.

|