Lystitúr
Hann Þórhallur vinur minn Þorsteinsson er mikill bjartsýnismaður.
Nú hefur hann enn eina ferðina boðið mér í lystitúr. Hér á árum áður lét ég glepjast af hans gylliboðum og fór með honum nokkra lystitúra til fjalla. Nauðsynlegasti búnaðurinn í slíkar ferðir voru gúmmíhanskar og skúringagræjur og svo voru skálar Ferðafélagsins hreingerðir hátt og lágt. Ekki þar fyrir þetta voru skemmtilegustu ferðir og hann átti það til að bæta fyrir með því að skreppa upp á Vatnajökul eða í íshellinn í Eyjabakkajökli, meira að segja fórum við mæðgur einu sinni með honum í Hveragil. Þá var ég reyndar rétt dauð af áhyggjum yfir að við kæmumst aldrei aftur til byggða því skyggnið var lélegt og Þórhallur eitthvað fátækur af gps-punktum. En þetta var samt fínasta ferð og þegar við vorum að klöngrast niður í gilið fór sólin að skína.
Nú hef ég grun um að í þessum lystitúr verði skóflur helsti búnaður því samkvæmt fréttum eru jeppar á víð og dreif eins og hráviður fastir í snjó inn um öll Snæfellsörævi.
Í þeirri frómu bók Orðabók skógarmanna er orðið lystitúr útskýrt svo: Ökuferðir sem ekki eru farnar í neinum göfugri tilgangi en að skemmta sér eru kallaðar lystitúrar. Þetta mun komið frá Páli á Hallormsstað. Hann kom tvisvar til Eiríks frá Dagverðargerði (sem þá vann á Hallormsstað) og bauð honum í lystitúra. Eiríkur tók þessum kostaboðum fegins hendi í bæði skiptin og bjó sig upp á í sparifötin. Í fyrra skiptið fóru þeir út í Egilsstaði og virtist Páll ekki eiga þangað nokkurt erindi en á leiðinni heim þá kom hann við á Eyjólfsstöðum og lét Eirík bera með sér túnþokur lengi kvölds þannig að sparifötin urðu lítið til spari eftir það. Í hitt skiptið þvældi Páll honum um allan skóg til að leita að kúm í ausandi rigningu. Engum sögum fer af sparifötunum hans Eiríks eftir það en hitt er víst að hann neitaði þaðan í frá öllum tilboðum frá Páli um lystitúra.
Lystitúr, ekki nema það þó, ég held ég haldi mig í byggð, enda búin að skipuleggja alla helgina í gleðskap og mannamót - frá föstudagskvöldi fram á sunnudagskvöld.
Nína vinkona mín kemur á eftir og við ætlum að fara að máta glys og glingur. Ég hef ákveðið að verða eins og gangandi glimmerdós í barbieskóm á föstudagskvöld en ekki vera innpökkuð í föðurland í fjallaskóm.