Hvítar tennur
Fór í tannhvítingu í dag.
Þetta er sársaukafull aðgerð eins og eflaust allar fegrunaraðgerðir. Hef verið að fá pílur í tennurnar í kvöld en þar sem tennurnar hvítnuðu um mörg númer sé ég ekki eftir að hafa lagt þetta á mig.
Það runnu á mig tvær grímur þegar stúlkan á tannlæknastofunni lét mig gapa eins og ég ætti að gleypa allan heiminn og setti einhverjar þvílíkar græjur upp í mig til að halda munninum nú vel opnum. Svo var farið að þvo og bursta og ég var spurð hvort þetta væru ekki örugglega allt mínar tennur. Humm, ég er nú ekki vön að mæta með annarra manna tennur til tannlæknisins, það er nú nógu dýrt að láta gera eitthvað við þær þó maður sé ekki að splæsa því á ókunnugar tennur.
Svo var smurt einhverju eitri á tennurnar og sterkt ljós látið skína á þær í heila klukkustund. En eins og ég segi, sársaukans og óþægindanna virði því núna ég get næstum leikið í tannkremsauglýsingu.
Loksins, loksins sé ég fram á að geta haft Jón Kalman með mér í bólið. Ég fékk hann lánaðan fyrir viku en hef ekki haft tíma til að kíkja á hann.
Jón Kalman var á bókmenntakynningunni sem ég fór á fyrir jólin á Skriðuklaustri og las úr Sumarljós og svo kemur nóttin. Ég alveg heilaðist af þessari bók og nú ætla ég sem sagt að skríða undir sæng og njóta þess að lesa.