06 apríl 2007

Erlingur afabróðir

Mér hefur mikið orðið hugsað til hans Erlings Filuppssonar.
Mér þótti afskaplega vænt um hann þegar ég var lítil og kallaði hann alltaf Karlinn minn. Hann kom með okkur austur að Núpsstað að heimsækja Hannes og hans fjölskyldu. Það voru farnar grasaferðir og svo kom hann auðvitað til okkar á Neðstutröðina.
Einu sinni sýndi hann mér ofan í seðlaveskið sitt og ég hélt eftir það að hann væri ríkasti maður í heimi. Ég man ekki betur en 500 krónu seðlarnir hafi verið brúnir og fyrir mér sem litlum krakka voru þetta óþrjótandi auðæfi sem við mér blöstu. Pabbi átti bara litla skrifblokk sem hann notaði þegar eitthvað var keypt.
En hvað um það. Ég var alveg miður mín um daginn þegar ég kom frá lækninum og sá fyrir mér að ég þyrfti að sækja um örorkubætur fljótlega. En læknirinn ráðlagði mér að ber illalyktandi hitakrem samviskusamlega tvisvar á sólarhring á þessa aumu liði. Kremið fengist í apótekinu.
Ástæðan fyrir því að þetta minnir mig á Erling er að hann bjó til ógeðslegt kremsull sem kallaðist gigtarmakstur og í var salmíak. Þetta var borið á auma liði og gerði mikið gagn.
Ég þarf að athuga hvort hann Gissur bróðir minn kann ekki að búa til gigtarmakstur, alla vega kunni mamma það.
Áður fyrr þótti læknum ekki mikið til grasalækna koma svo mér finnst þetta svolítið spaugilegt, því satt að segja er ég orðin nokkuð góð í handleggnum og hann dugar mjög vel í pökkunarstarfinu.

|