18 september 2008

Stundum er ég eins og álfur

... út úr hól og lengst úti á túni.
T.d. þegar ég heyri ungar konur ræða meðgöngu og fæðingu. Þá fer ég að brjóta heilann um hvort það sé misminni að ég hafi gengið með tvö börn.
Ég man ekki eftir að til væri eitthvað sem heitir grindargliðnun. Nú er önnur hver ófrísk kona að kljást við það vandamál.
Ég minnist þess ekki að maður hafi fengið einhverja kynningu á hvernig fæðingadeild liti út, maður bara fór þangað þegar barnið var að koma í heiminn. Í dag fara foreldrar í sérstaka kynnisferð og sjá hvernig ljósmóðir og læknir líta út. Hvernig fæðingastofan er innréttuð og hvernig rúm nýfædda barnið verður lagt í. Ekkert skal koma á óvart.
Þetta er reyndar gott mál.
En í dag þegar ég var að kaupa í matinn í Bónus rakst ég á nokkuð sem fékk mig enn og einu sinni til að spyrja sjálfa mig hvort ég væri kona fædd á 18. eða 20. öld.
Ég sá nefnilega nokkuð sem kom mér mjög spánskt fyrir sjónir. Dömubindi með E-vítamíni.
Svei mér þá, ég sem hef alltaf haldið að E-vítamín væri eitthvað sem væri í matnum sem maður borðaði og meltingakerfið myndi skila út í líkamann.
Ég hlýt að þjást af E-vítamínskorti. Hvernig fá karlar E-vítamín? Þeir þurfa kannski ekki á því að halda.

|