Nú helgin er liðin
Skagfirðingar eru höfðingjar heim að sækja.
Við Soroptimistasystur fengum engar slordónamóttökur. Um hádegi á laugardag var móttaka á bænum Syðra Skörðugili og þar létu húsráðendur það ekki vefjast fyrir sér að taka á móti 40 konum í hádegismat.
Syðra Skörðugil er mikið myndar- og menningarheimili sem gaman var að heimsækja. Húsfreyjan snaraði sér svo í leiðsögumannshlutverk og sýndi okkur það helsta í Skagafirði. M.a. heimsóttum við kirkjuna að Víðimýri og fengum skemmtilega fræðslu hjá staðarhaldara.
Svo var haldið í Hrímnishöll. Ein af Skagafjarðarsystrum hefur, ásamt manni sínum, byggt myndarlegt hesthús með sýningaraðstöðu. Fyrst sýndi hún okkur manninn sinn á baki á gæðingi einum. Það var nú ekki leiðinleg sýning. Svo var höllin skoðuð og bornar fram kökur og kaffi. Gleymdi að segja að þegar við komum að Hrímnishöll var komið á móti okkur með drykki á bakka.
Þá var bara að skella sér að Bakkaflöt þar sem kvölddagskráin beið okkar. Einhverjar notuðu hléið fram að kvöldmat til að fara í heita pottinn þar sem tíminn var notaður til að setja saman brag sem við sungum fyrir norðankonur um kvöldið, en ég lagðist bara upp í rúm og gerði slökunaræfingar.
Svo tók við þriggja rétta kvöldverður, skemmtidagskrá og spjall og söngur fram á nótt.
Hingað til hef ég alltaf brunað stystu leið í gegnum Skagafjörð á leið minni til Reykjavíkur en hér eftir á ég eftir að líta þennan fallega stað öðrum augum.
Ég segi bara eins og ein Reykjavíkurdama sem þurfti að erinda á Sauðarkróki: Það er nú bara fallegt þarna fyrir norðan og það býr þarna bara venjulegt fólk.
Ég er strax farin að hlakka til að heimsækja Húsavíkursystur, en þær verða næst með móttöku fyrir okkur konur af Norður- og Austurlandi.